Inngangur
Formáli forstjóra
Inngangur
Formáli forstjóra

Rekstur ársins einkenndist af Covid veirunni. Flestum ráðstöfunum og aðgerðum sem ráðist var í vegna faraldursins á árinu 2020 var fram haldið. Faraldurinn er búinn að standa yfir í tæp tvö ár og hefur hann haft í för með sér mjög annasama tíma hjá ÁTVR. Sem betur fer var árið viðráðanlegra en það fyrra þótt álagið væri mikið.

Áfengi var selt fyrir tæpa 40 milljarða og minnkaði magnið í lítrum um 1,6% á milli ára. Tóbak var selt fyrir rúmlega 11 milljarða. Þetta er aðeins í annað skipti í sögunni sem ársvelta ÁTVR fer yfir 50 milljarða. Fjöldi viðskiptavina á árinu var 5,5 milljónir sem er 0,6% fækkun frá fyrra ári.

Covid faraldurinn ýtti á margan hátt undir nýja hugsun og breyttar aðferðir við ýmsar athafnir daglegs lífs. Fólk var meira heimavið og fóru margir eins lítið út og mögulegt var. Breyttar lífsvenjur höfðu í för með sér að verslun yfir netið varð almennari. Má segja að í faraldrinum hafi vefverslun endanlega fest sig í sessi sem viðurkenndur verslunarmáti. Hægt er að kaupa alls konar vörur yfir netið og er áfengi þar ekki undanskilið. Vefverslunin er fjölbreytt og margir möguleikar á afhendingu vörunnar. Neytendur geta valið um að fá vöruna senda heim til sín eða á sérstaka afhendingarstaði sem víða spretta upp. Þeir eru oft ómannaðir og því engin leið að fylgjast með aldri þess sem sækir vöruna. Einnig er hægt að panta og greiða yfir netið, við inngang verslunar eða úr símum, og fá svo vöruna afhenta yfir afgreiðsluborð eins og víða má sjá í dag.

Einkareknar vefverslanir með áfengi komu fram á sjónarsviðið og var starfsemi þeirra fyrirferðarmikil í samfélagsumræðunni. Verslanirnar hafa fengið að starfa óáreittar þrátt fyrir að flestir séu sammála um að fyrir þeim sé ekki heimild í lögum og rekstur þeirra stangist á við einkaleyfi ÁTVR. Vefverslanirnar afhenda áfengi hverjum sem er þrátt fyrir ákvæði laga um að ekki megi afhenda og selja áfengi þeim sem eru yngri en 20 ára. Einnig eru þær opnar allan sólarhringinn þrátt fyrir ákvæði laga um lögbundinn opnunartíma áfengisverslana.  

Í umræðu um vefsölu áfengis er því gjarnan haldið fram að nauðsynlegt sé að jafna stöðu innlendrar og erlendrar verslunar með áfengi og vísað til þess að almenningi sé heimilt að kaupa áfengi af erlendum vefverslunum en ekki innlendum. Þetta er rangt. Það er engin mismunun til staðar.

Einstaklingar mega flytja inn áfengi til eigin nota. Skiptir engu hvort einstaklingurinn kaupir áfengið í smásöluverslun eða í vefverslun. Viðskiptin eiga sér stað utan yfirráðasvæðis íslenska ríkisins og brjóta þannig ekki í bága við einkaleyfi ÁTVR. Því er ekki um neina mismunun að ræða heldur ólík viðskipti. Annars vegar smásölu erlendis og hins vegar smásölu innanlands, sem íslenski löggjafinn hefur valið að binda einkarétti ÁTVR í því skyni að vinna gegn misnotkun áfengis, með það að markmiði að stuðla að bættri lýðheilsu og samfélagslegri ábyrgð, draga úr skaðlegum áhrifum áfengisneyslu, vernda ungt fólk gegn neyslu áfengis og takmarka framboð á óæskilegum vörum.

Evrópuréttur gerir kröfu um að aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins tryggi heimild einstaklinga til innflutnings áfengis til eigin nota. Þetta er staðfest í dómi Evrópudómstólsins í svokölluðu Rosengren-máli nr. C-170/04. Það er í fullu samræmi við skilyrði Evrópuréttar að binda smásölu áfengis innanlands einkarétti samhliða því að heimila einkainnflutning áfengis sem keypt er erlendis. Evrópusambandið samþykkti einnig rekstur norrænu ríkiseinkasalanna á áfengi þó rekstur þeirra væri í mótsögn við grunnstoð Evrópusambandsins um frelsi í viðskiptum. Skilyrði var sett um að einkasölurnar yrðu að vera grundvallaðar á lýðheilsu og almannaheill og tilgangurinn með rekstri þeirra væri að takmarka skaðann sem ofneysla áfengis veldur í samfélaginu til þess að heimild fengist fyrir starfsemi þeirra.

Vefverslun einkaaðila með áfengi leiðir af sér afnám einkaleyfis ÁTVR

Ef vefverslun einkaaðila með áfengi verður leyfð á Íslandi er smásala áfengis innanlands í raun gefin frjáls. Ekki er hægt að gera upp á milli eða skilja í sundur „hefðbundna“ smásölu annars vegar og vefverslun hins vegar. Vefverslun er hluti af almennum verslunarrekstri í dag. ÁTVR er þar ekki undanskilin en verslunin hefur um árabil boðið viðskiptavinum sínum að panta áfengi rafrænt á vefnum og fá það afhent í Vínbúðum ÁTVR. Í þessu máli er engin millileið til. Það er einfaldlega ekki hægt að vera með frjálsa samkeppni og einkasölu á sömu vöru á sama tíma. Slíkt fyrirkomulag brýtur bæði gegn íslenskum samkeppnislögum og Evrópurétti. Ef einkaaðilum á Íslandi er leyft að selja áfengi yfir netið er sú sala komin í beina samkeppni við einkasöluna. Með því væri búið að opna fyrir markaðslögmálin og viðskiptahagsmuni einkaaðila með tilheyrandi samkeppni, verðstríði og söluhvötum en öll þessi atriði eru í beinni andstöðu við meginstef gildandi áfengisstefnu hér á landi. Þá yrði smásala áfengis ekki lengur grundvölluð á lýðheilsu og almannaheill sem er grundvöllur einkaleyfis ÁTVR. Með því að heimila einkaaðilum slíka verslunarstarfsemi liggur í hlutarins eðli að einkaréttur ÁTVR er um leið liðinn undir lok því ÁTVR uppfyllir ekki lengur skilyrði Evrópuréttar fyrir einkaleyfinu.

Í þessu samhengi er ágætt er að rifja upp orð Johns D. Rockefellers en hann hefur oft verið kenndur við hugmyndafræðina á bak við ríkiseinkasölu áfengis.

John D. Rockefeller átti velgengni að fagna í viðskiptalífinu í byrjun 20. aldarinnar og byggði hann upp risafyrirtæki á heimsvísu. Hann var framsýnn maður og einn af aðal talsmönnum frjálsrar samkeppni þess tíma. Hann skildi vel mikilvægi einkarekstrar og hvað það er sem drífur einkareksturinn áfram. Rockefeller var þeirrar skoðunar að sala á áfengi og einkarekstur fari ekki vel saman. Einkarekstur, samkeppni og markaðsöflin eru einfaldlega of öflug verkfæri fyrir áfengissöluna. Eða með orðum Johns D. Rockefeller sjálfs:

„Aðeins þegar hagnaðarhvötinni hefur verið eytt er von til þess að hægt sé stjórna áfengissölunni til hagsbóta fyrir sómasamlegt samfélag. Allar aðrar leiðir eru yfirklór og dæmdar til að mistakast. Á þetta þarf að leggja ofuráherslu.“

Textinn er bein tilvitnun úr formála bókarinnar Toward Liquor Control, sem gefin var út árið 1933.

Skoðun Rockefellers var að drifkraftur sífellds aukins hagnaðar reki einstaklinga áfram í að leita stöðugt leiða til þess að auka sölu og þar með bæta sinn hag. Þá væri betra að vera með sérstök fyrirtæki í eigu ríkisins sem hefðu það hlutverk að flytja inn, selja og dreifa áfengi til almennings. Starfsfólkið væri ríkisstarfsmenn á föstum launum sem hefði engan persónulegan hag af því að auka söluna. Samkeppni í áfengissölu væri þannig útilokuð og þar með yrði minna áfengi selt. Einnig myndi allur hagnaður af áfengissölunni renna til ríkjanna sjálfra og þar með fengju þau fé til þess að standa straum af samfélagslegum kostnaði sem óhjákvæmilega fylgdi áfengisneyslunni. Segja má að hugmyndafræði Rockefellers hafi lagt grunninn að starfsemi ríkisrekinna áfengisverslana.

Verði netverslun einkaaðila á áfengi leyfð mun aðgengi að áfengi gjörbreytast. Það verður alltaf innan seilingar á öllum tímum sólarhringsins alla daga ársins. Með innleiðingu einkahagsmuna í smásölu áfengis er verið að víkja af braut ábyrgrar áfengisstefnu sem fylgt hefur íslensku þjóðinni í heila öld. Áfengisstefnu sem skilað hefur þjóðinni heilbrigðum ungmennum, minni áfengisneyslu, betri lýðheilsu og almannaheill. Það er árangur sem eftir er tekið á alþjóðavettvangi.

Hornsteinn íslenskrar áfengisstefnu er rekstur ÁTVR

Hornsteinn áfengisstefnunnar hér á landi hefur frá árinu 1922 verið rekstur ríkiseinkasölu með áfengi á smásölustigi. Markmiðin eru augljós lýðheilsu- og samfélagsrök, að takmarka aðgengi að áfengi og þannig vinna gegn misnotkun og skaðlegum áhrifum þess. Að baki þessum markmiðum býr sú staðreynd sem margsinnis hefur verið leidd í ljós í rannsóknum og styðst einnig við reynslu margra þjóða þar sem ríkiseinkasala á áfengi er ekki til staðar, að aukið aðgengi leiðir til meiri áfengisneyslu sem aftur leiðir til meiri samfélagslegs skaða. Íslensk stjórnvöld hafa hingað til varið einkarétt ríkisins til smásölu áfengis og lagt kapp á að viðhalda honum, m.a. með sérstakri yfirlýsingu um rekstur ríkiseinkasölu á áfengi við gerð EES-samningsins. Heimild til reksturs einkasölunnar í skjóli 16. gr. samningsins réttlætist af vernd lífs og heilsu manna, sbr. 13. gr. Alþjóðleg heilbrigðisyfirvöld telja ríkiseinkasölu með áfengi meðal árangursríkustu leiða til þess að takmarka skaðleg áhrif áfengisneyslu og hvetja stjórnvöld eindregið til þess að viðhalda fyrirkomulaginu þar sem það er við lýði.

Nauðsynlegt er að undirstrika að ÁTVR stuðlar að markmiðum stjórnvalda um lýðheilsu með margvíslegum öðrum hætti en takmörkun á fjölda sölustaða. Verðlagningu er stýrt með fastri lögbundinni álagningu og kveðið á um að vöruverð skuli vera jafnt um allt land. Margvíslegar kröfur eru auk þess gerðar til sölustaða ÁTVR, opnunartími er takmarkaður og ÁTVR gefin heimild til að hafna óæskilegum vörum, m.a. vörum sem höfða sérstaklega til barna og ungmenna. Einnig er hluti af núverandi áfengisstefnu að ÁTVR stundar ekki söluhvetjandi markaðsaðgerðir í formi afslátta og tilboða. Þá skal ÁTVR veita viðskiptavinum ítarlegar upplýsingar um áfengi, m.a. um skaðsemi þess og vinna gegn skaðlegri neyslu þess.

Til marks um mikilvægi aðhaldssamrar áfengisstefnu, ekki síst gagnvart áfengisneyslu ungmenna vill ríkisstjórn Danmerkur nú herða sína frjálslyndu áfengislöggjöf til þess að sporna við unglingadrykkju. Vísað er til niðurstaðna Evrópsku vímuefnarannsóknarinnar, ESPAD, en þar kemur m.a. fram að dönsk börn drekka meira áfengi en börn víðast hvar í álfunni. Niðurstöðurnar eru mjög áhugaverðar og raunar sláandi þegar Danmörk og Ísland eru borin saman. Ísland stendur einna fremst og í Danmörku er ástandið einna verst. Hér að neðan eru nokkur dæmi úr niðurstöðunum:

  • Yfir 90% ungmenna í Danmörku segja að það sé auðvelt að nálgast áfengi en hlutfallið er 62% á Íslandi
  • Að meðaltali höfðu 6,7% ungmenna, 13 ára og yngri, neytt áfengis í Danmörku en hlutfallið var lægst á Íslandi, 1,8%
  • Hlutfall „lifetime alcohol use“ var yfir 90% í Danmörku en undir 60% á Íslandi
  • 59% ungmennanna höfðu drukkið 5 eða fleiri drykki í einu undanfarna 30 daga í Danmörku þar sem hlutfallið var hæst en hlutfallið var lægst á Íslandi 7,6%
  • Magn áfengis (í sentilítrum) á síðasta drykkjudegi var hæst í Danmörku, 8,8 sentilítrar af etanóli en hlutfallið var 4,0 sentilítrar á Íslandi.

Valið stendur um hvort halda eigi í áfengisstefnu sem fylgt hefur verið hér á landi í áratugi og stuðlað hefur að auknu heilbrigði íslenskra ungmenna, minni áfengisneyslu og betri lýðheilsu og almannaheill eða leggja áfengisstefnuna til hliðar og gefa smásölu áfengis alfarið frjálsa. Í þessum efnum verður ekki bæði sleppt og haldið.

Meirihluti þjóðarinnar er hlynntur áframhaldandi rekstri ÁTVR og styður þannig við þau samfélagslegu gildi sem verslunin stendur fyrir. Styrkur ÁTVR felst í frábæru starfsfólki sem veitir viðskiptavinum verslunarinnar afbragðsþjónustu. Mikilvægt er að við höldum ótrauð áfram að þjóna viðskiptavinum okkar eins og best verður á kosið. Þannig tryggjum við framtíð ÁTVR um ókomna tíð.

Ég þakka starfsfólki ÁTVR samstarfið á árinu.

Ívar J. Arndal

ivar-undirskrift.png

Heildarstefna
Inngangur
Heildarstefna

Hlutverk

Að framfylgja stefnu stjórnvalda um bætta lýðheilsu og samfélagslega ábyrgð í áfengis- og tóbaksmálum í sátt við samfélagið.

Stefna

Að vera í hópi bestu þjónustufyrirtækja landsins og fyrirmynd á sviði samfélagsábyrgðar.

Við veitum framúrskarandi og fjölbreytta þjónustu með jákvæðu viðmóti, virðingu og faglegri ráðgjöf. Það er okkur hjartans mál að mæta þörfum og væntingum viðskiptavina með fagmennsku og fræðandi upplýsingum.

Upplifun – Vöruúrval – Traust

Frábært starfsfólk er grunnur að góðum árangri. Við viljum eftirsóknarverðan vinnustað þar sem samskipti einkennast af lipurð, þekkingu og ábyrgð. Áhersla er lögð á að starfsfólk geti vaxið í starfi og aflað sér þekkingar sem stuðlar að starfsánægju og framúrskarandi þjónustu.

Starfsumhverfi – Þekking – Liðsheild

Fagmennska, hagkvæmni og ábyrg vinnubrögð einkenna starfsemina. Lögð er áhersla á mælanleg markmið til að tryggja árangur á öllum sviðum. Við fylgjumst með og tileinkum okkur nýjungar til framfara.

Ábyrgð – Fagmennska – Nýsköpun

Við leggjum áherslu á góð tengsl og samvinnu við birgja og þjónustuaðila. Við gætum jafnræðis í samskiptum og við val og dreifingu á vörum. Öflug rafræn samskipti og birgjavefur bæta þjónustu og upplýsingaflæði.

Jafnræði – Samtal – Upplýsingar

Við erum fyrirmynd í samfélagsábyrgð og þjónustu. Við stuðlum að sátt og jákvæðu orðspori um hlutverk okkar. Við berum virðingu fyrir umhverfinu og leitum leiða til að lágmarka vistspor okkar.

Sjálfbærni – Samfélagið – Ímynd

ÁTVR vinnur eftir 15 ÁHERSLUM sem styðja við fimm meginþætti starfseminnar.

Stefnan gildir frá 1. janúar 2020

Ný heildarstefna tók gildi 1. janúar 2020, hún byggir á fimm meginþáttum starfseminnar: þjónustu, starfsfólki, starfsháttum, birgjum og samfélagi. Fyrir meginþættina hafa 15 áherslur verið skilgreindar og út frá þeim eru aðgerðaáætlanir og mælikvarðar unnir. Upphaflega var stefnunni ætlað að gilda í þrjú ár en vegna óvenjulegra aðstæðna var ákveðið að framlengja gildistökuna um eitt ár, því mun gildistími stefnunnar vera til ársloka 2023.

ÁTVR hefur sett sér stuðningsstefnur í samræmi við heildarstefnu.

Framkvæmdaráð
Inngangur
Framkvæmdaráð
Ívar J. Arndal
Forstjóri
Sigrún Ósk Sigurðardóttir
Aðstoðarforstjóri
Sveinn Víkingur Árnason
Framkvæmdastjóri
Kristján M. Ólafsson
Framkvæmdastjóri
Skipulag og stjórnun
Inngangur
Skipulag og stjórnun

ÁTVR starfar eftir lögum nr. 86/2011 um verslun með áfengi og tóbak. Lögin gilda um smásölu á áfengi og heildsölu á tóbaki. Markmið laganna er þríþætt: Skilgreina umgjörð um smásölu áfengis og heildsölu tóbaks sem byggist á bættri lýðheilsu og samfélagslegri ábyrgð. Takmarka og stýra aðgengi að áfengi og tóbaki og draga þannig úr skaðlegum áhrifum áfengis- og tóbaksneyslu. Vernda ungt fólk gegn neyslu áfengis og tóbaks og takmarka framboð á óæskilegum vörum. Fjármála- og efnahagsráðherra skipar forstjóra sem fer með stjórn stofnunarinnar og ber ábyrgð á daglegum rekstri.

Skipuritið gildir frá 1. ágúst 2020

Skipuritið sýnir starfsemi fyrirtækisins á myndrænan hátt. Meginsviðin eru tvö: vörudreifing og heildsala tóbaks, og sölu- og þjónustusvið. Stoðsviðin eru fjögur: fjárhagssvið, mannauðs- og starfsþróunarsvið, rekstrarsvið og vörusvið. Þeim er ætlað að styðja meginsviðin tvö. Til að tryggja skilvirka stjórnun, funda forstjóri og framkvæmdastjórar að jafnaði vikulega. Vegna aðstæðna sem sköpuðust vegna heimsfaraldurs árið 2020 þurfti að endurhugsa alla fundi og upplýsingaflæði. Workplace varð miðpunktur í miðlun upplýsinga og tók að mestu við hlutverki reglulegra funda sem áður voru haldnir. Fjarfundabúnaður var settur upp á flestum starfsstöðvum til að tryggja betri samskipti og upplýsingaflæði. Árið 2021 var sambærilegt að þessu leyti þar sem enn voru í gildi takmarkanir vegna Covid faraldursins.

Árs- og samfélagsskýrsla
Inngangur
Árs- og samfélagsskýrsla

Starfsemi ÁTVR er eingöngu á Íslandi. Árs- og samfélagsskýrslan nær yfir alla starfsemina og gildir fyrir árið 2021. Ísland er skilgreint sem nærsamfélag, allir stjórnendur eru íslenskir og búsettir á landinu. Skýrslan er gefin út á rafrænu formi og birt á www.vinbudin.is. Hægt er að prenta skýrsluna út í heild eða velja einstaka hluta hennar til útprentunar.

Við gerð skýrslunnar er fylgt Global Reporting Initiative (GRI) Standards. Tilgangurinn er að skrá og miðla með gagnsæjum hætti upplýsingum sem tengdar eru samfélagslegri ábyrgð. Í skýrslunni er gerð grein fyrir 37 mælikvörðum í þremur flokkum. Hægt er að nálgast heildaryfirlit og mælikvarða í sjálfbærnihluta skýrslunnar. Gerð er grein fyrir mælikvörðum í texta skýrslunnar þar sem það á við.

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun tóku gildi í ársbyrjun 2016. Þau eru framkvæmdaáætlun í þágu mannkyns, jarðar og hagsældar. Heimsmarkmiðin eru 17 talsins og þeim fylgja 169 undirmarkmið. Mælt er með því að fyrirtæki og stofnanir innleiði markmiðin í starfsemi sína. Hægt er að velja sér ákveðin markmið til að setja í forgang eða vinna með þau sem heild. ÁTVR hefur unnið með sex áherslumarkmið: heilsu og vellíðan, jafnrétti kynjanna, góða atvinnu og hagvöxt, ábyrga neyslu og framleiðslu, aðgerðir í loftlagsmálum og samvinnu um markmiðin. Í sérstöku yfirliti í skýrslunni er gerð grein fyrir einstökum áherslum.

Amfori eru leiðandi samtök í heimi viðskipta þar sem markmiðið er að tryggja að öll viðskipti skapi félagslegan, umhverfislegan og fjárhagslegan ávinning fyrir alla. Áfengiseinkasölur á Norðurlöndunum, þar með talið ÁTVR, eru aðilar að amfori. Siðareglur amfori eru lagðar til grundvallar í norræna samstarfinu (NAM – Nordic alcahol monopoly). Með aðild vilja einkasölur stuðla að aukinni sjálfbærni í aðfangakeðjunni og tryggja, eins og kostur er, að allar vörur sem boðnar eru til sölu séu framleiddar í samræmi við siðareglur. Lögð hefur verið áhersla á formlegt og aukið samstarf amfori og NAM. Covid hefur haft veruleg áhrif á starfsemi amfori undanfarin tvö ár. Fresta hefur þurft fjölmörgum námskeiðum og úttektum á vegum amfori. Á hinn bóginn hefur samstarfið þróast út í aukna rafræna fræðslu. Markmið allra námskeiða og úttekta sem amfori framkvæmir er að tryggja að siðareglum sé framfylgt í aðfangakeðjunni um leið og leitað er leiða til að gera betur.

Festa – miðstöð um samfélagsábyrgð og sjálfbærni hefur það hlutverk að efla samfélagslega ábyrgð fyrirtækja og hvetja þau til að tileinka sér samfélagslega ábyrga starfshætti og stuðla að aukinni sjálfbærni. ÁTVR er meðlimur í Festu og tekur virkan þátt í starfsemi félagsins.

Hagsmunaaðilar
Inngangur
Hagsmunaaðilar
Stefna ÁTVR er að vera í hópi bestu þjónustufyrirtækja landsins og fyrirmynd á sviði samfélagsábyrgðar.

Í samræmi við meginþætti heildarstefnunnar hefur hagsmunaaðilum verið skipt í fimm flokka: viðskiptavinir, mannauður, samfélag, eigandi og birgjar. Gerð er grein fyrir áherslum gagnvart einstökum hagsmunaaðilum, en allar miða þær að því að fylgja þeim áherslum sem koma fram í heildarstefnunni.

Sjálfbærnistjórnun
Inngangur
Sjálfbærnistjórnun
Markmið og mælikvarðar

Árlega er unnin aðgerðaáætlun á grundvelli heildarstefnu. Í grunninn er aðgerðaáætlun unnin út frá þeim fimm meginþáttum starfseminnar og áherslum sem skilgreind eru í heildarstefnunni, það eru þjónusta, starfsfólk, starfshættir, birgjar og samfélag. Líkt og árið 2020 þurfti að aðlaga verkefni ársins að takmörkunum vegna heimsfaraldurs, sumum verkefnum þurfti að fresta en önnur, sem höfðu mikil áhrif á starfsemina, komu í staðinn.

Mælanleg markmið eru sett fyrir flesta þætti í rekstri og niðurstöður kynntar mánaðarlega, meðal annars í skorkortum Vínbúðanna. Öll skorkort eru aðgengileg starfsfólki á sérstöku vefsvæði, auk annarra gagnlegra upplýsinga sem snúa að rekstrinum. Stöðugt er unnið að því að þróa upplýsingar og gögn ætluð stjórnendum til að auðvelda ákvarðanir og auka yfirsýn.

Sjálfbærnistjórnun

Í töflunni má sjá helstu markmið og mælikvarða flokkuð eftir hagsmunaaðilum með tilvísun í GRI mælikvarða og Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Einnig er í töflunni tilvísun í siðareglur alþjóðasamtakanna amfori. Taflan var endurskoðuð á árinu 2021, skipt var um nokkra mælikvarða vegna breytinga á mælingum. Í tveimur tilfellum voru mælingar ekki framkvæmdar á árinu en stefnt er að mælingum á árinu 2022.